Golfvellirnir & viðhald

Golfsumarið 2021 byrjaði með sama hætti og síðustu ár þar sem haldinn var hreinsunardagur og völlurinn svo opnaður fyrir leik í kjölfarið. Þetta árið var hreinsunardagurinn haldinn þann 10. maí. Vegna aðstæðna í samfélaginu var þeim meðlimum sem ekki komust eða treystu sér, boðið að mæta dagana á undan og vinna afmörkuð verk. Góð mæting var bæði á formlega daginn og dagana á undan. Þann 12. maí var opnað fyrir leik á Hvaleyrarvöll við góð skilyrði.

Maímánuður var góður til golfiðkunar þar sem úrkoma var lítil og sólin skein óvenju mikið.

Þrátt fyrir gott veður til leiks var mánuðurinn kaldur. Vellirnir héldu þó ágætlega í við gríðarlega aðsókn en lítið var um vetrarskaða við opnun. Líkt og árið á undan sást það bersýnilega í vor hversu mikilvæg hvíld á vellinum í kring um mánaðarmótin apríl/maí er fyrir komandi álag.

Líkt og maímánuður var júní prýðilegur til golfleiks. Úrkoma og sólskin voru í meðallagi en hiti þó enn töluvert lítill. Að frátöldu almennu viðhaldi unnu vallastarfsmenn við gerð teiga á nýrri 17. braut ásamt því að koma flöt og braut í stand fyrir opnun. Aðsókn á vellina hélt áfram að vera með mesta móti og greinilegt að kylfingar létu smá kulda ekki á sig fá.

Júlímánuður var sem áður viðburðamesti mánuður tímabilsins hjá okkur.

Þó sólskinsstundir hafi verið fáar í júlí, fór loks að hlýna hjá okkur og úrkoma langt undir meðallagi. Meistaramótið var haldið í byrjun júlí, veður var gott og aðstæður almennt góðar í mótinu. Í kjölfar meistaramóts var Hvaleyrarbikarinn spilaður og segja mætti að hlýindin hafi komið á hárréttum tíma svo spilafletir næðu að halda í við mikið álag.

Í lok júlí tók svo við vinna við framkvæmdir á verðandi 17. braut Hvaleyrarvallar.

Vinna við nýju brautina hélt svo áfram í ágúst og heppilega hélt veðrið áfram að leika við okkur. Mjög hlýtt var í ágúst og úrkoma í meðallagi. Vel gekk með framkvæmdir og sáðum við í nýju flötina þann 17. ágúst. Auk framkvæmda við nýja 17. braut og almenns viðhalds sáðu starfsmenn einnig í nýtt knattspyrnusvæði Hauka að Ásvöllum. Sáð var í svæðið þann 29. ágúst og dúkað daginn eftir. Ekkert lát var á aðsókn í vellina framan af ágústmánuði en seinni hluta mánaðar fór veður að versna.

Haustið var mjög gott og aftur náðum við að bjóða upp á langt og gott tímabil.

Aðsókn á vellina var þó minni en í fyrra þar sem fleiri fóru að ferðast og vellirnir fengu því örlítið meiri hvíld í lok tímabils. Hvaleyrarvöllur var opinn til 4. nóvember og ánægjulegt var hversu góðar spilaaðstæður voru enn á þeim tíma en tíð frost urðu til þess að loka þurfti vellinum. Sveinskotsvöllur er enn opinn þegar þetta er ritað og vonumst við til þess að staðan haldist þannig sem lengst.

Viðhald valla í sumar var með sama sniði og síðustu ár. Vellirnir komu vel undan vetri og lítið var um vetrarskaða, en þó eitthvað. Mesti skaðinn var eins og oft áður í lágpunktum brauta.

Helsti skaði flata var á 2. flöt og voru það sömu sár og náðu ekki nægilegum gróanda árið áður. Aðrar skemmdir á flötum frá árinu á undan náðu góðum bata. Eftir að hafa margsáð í skemmdir á 2. flöt var ákveðið að tyrfa í stærstu sárin seint í sumar. Tyrfingin tókst prýðilega og vonandi höfum við séð það síðasta af þessum vandræðasvæðum á flötinni.

Sár fóru svo að myndast í jaðri 13. flatar í sumar og munum við þurfa að breyta viðhaldi til að koma í veg fyrir að slík sár myndist í framtíðinni. Sárin myndast vegna sláttuvélanna sem slá í kringum glompurnar. Á nokkrum svæðum á vellinum eru glompur staðsettar þannig að sláttuvélarnar teygja sig inn á flatirnar þegar slegið er í kring um þær. Einnig geta slík sár myndast í kringum glompurnar sjálfar. Næsta sumar munum við hætta að slá í kringum slíkar glompur á ásetuvélum og nota þess í stað handsláttuvélar. Með því vonumst við til að sár sem þessi heyri sögunni til og einnig ættu glompurnar að verða snyrtilegri með þessari breytingu á slætti.

Minna fór fyrir mosa en á síðasta tímabili þó hann hafi enn verið nokkuð útbreiddur á vissum svæðum. Erfitt er að vinna hratt á mosanum án þess að rífa hann allan upp og skilja eftir gríðarlega stór sár á flötunum. Starfsmenn voru mjög duglegir við sáningu í mosasvæði í sumar og teljum við að það sé vænlegasta lausnin við þessum vanda. Við slíka aðgerð eru lítil göt stungin í mosablettina og agnarsmáum língresisfræjum komið fyrir í þeim. Verkefnið er tímafrekt en það var ánægjulegt að sjá strax síðsumars hversu vel hafði tekist og ófáir mosablettirnir sem voru að gefa undan gegn grasinu sem sáð var í þá. Auk sáninga bætum við járnsúlfati í allar úðanir sem framkvæmdar eru á vellinum. Járnsúlfat heldur aftur af vexti mosa en drepur hann þó ekki. Nema í magni sem ekki er æskilegt fyrir grasið.

Nú seinnipart hausts var svo tekið átak í viðgerðum á ljótum mosasvæðum og svæðum þar sem illgresið pearlwort hefur náð sér á strik. Þar sem við höfðum gömlu 17. flötina að mestu óskemmda, voru teknir um 40 tappar þaðan og skipt út fyrir vandræðasvæði á flötum. Flestir tappanna fóru í 9. flötina en hún hefur lengi komið verst út úr ágangi illgresis og mosa.

Viðhald flata einkenndist af tíðum áburðargjöfum með litlum skömmtum í senn. Þannig er hraða flatanna haldið jöfnum yfir tímabilið og hætta á sýkingum og ágengum, óæskilegum grastegundum lágmörkuð. Vatnsmiðlunarefnum var úðað á flatirnar um það bil einu sinni í mánuði til að viðhalda jöfnu rakastigi sem og bæta eiginleika jarðvegsins til að taka við og hleypa vatni í gegn um efstu lög. Vaxtaletjandi efnum var einnig úðað á flatir til að hægja á vexti og þétta grassvörð.

Engin jarðvegssýni voru send til greiningar þetta árið en haustið áður höfum við sent auka sýni til greiningar. Út frá niðurstöðum síðasta árs var auðvelt að reikna út að skortur á nauðsynlegum næringarefnum var afar ólíklegur. Til að enginn vafi léki á því úðuðum við þó tvisvar með öllum þeim efnum sem teljast nauðsynleg og útilokuðum þannig líkur á næringarskorti öðrum en köfnunarefni.

Í heildina fóru eftirfarandi næringarefni á flatir per/ha :

Köfnunarefni 95 kg/ha – Fosfór 7 kg/ha – Kalí 14 kg/ha – Járnsúlfat 20 kg/ha, auk annarra snefilefna.

Vegna fyrirséðs álags fengu teigar og svuntur vænni skammt af áburði en oft áður.

Augljóst var tímabilið á undan að teigar þurftu að þola mikið álag og endurnýjun grass þar hægari en við höfum vanist. Settur var út hæglosandi áburður á alla teiga í vor. Slíkur áburður leysist hægt og rólega upp í jarðveginum yfir sumarið og er því sífellt aðgengi að næringarefnum út vaxtatímabilið. Auk hæglosandi áburðar var völdum teigum gefinn auka skammtur af áburði seinnipart sumars. Auk teiga var svuntum og álagssvæðum á brautum einnig gefin næring með hæglosandi áburði í vor. Með notkun hæglosandi áburðar missir maður þó örlitla stjórn á vexti grassins. Þó áburður sem þessi sé orðinn nokkuð áreiðanlegur, missir maður samt sem áður stjórn á nákvæmni vaxtar. Þ.e. hvenær og hversu mikið grasið vex og yfirleitt eykst aðgengi plöntunnar að köfnunarefni nokkuð mikið við aukningu á hitastigi. Mikill vöxtur reyndist okkur starfsmönnum því örlítill höfuðverkur á köflum í sumar. Þegar mikið vex skilja sláttuvélarnar eftir sig mikið af klipptu grasi. Til að geta boðið kylfingum upp á snyrtileg spilasvæði þurftum við því að blása mikið af grasi í sumar. Þrátt fyrir allt teljum við að mikilvægast sé að gott gras sé á teigum og svuntum og aðgerðir sem þessar réttlætanlegar þegar álag er í meira lagi.

Annað verkefni sem ljóst var að þurfti að bregðast við með aukinni umferð voru kylfuför.

Það sást vel sumarið á undan að betur þyrfti að bregðast við öllum þeim kylfuförum sem mynduðust á brautum og teigum með auknu spili. Í vor var því ákveðið að yngstu starfsmenn okkar sem komu frá Vinnuskóla Hafnarfjarðar yrðu nánast eingöngu í því að fylla upp í kylfuför með sandi og fræjum. Þetta fyrirkomulag gekk vel fyrir sig og þó erfitt sé að halda í við öll förin, varð stór bæting á.

Valdar flatir fengu yfirsáningu í sumar. Þær flatir sem ákveðið var að sá í voru þær sem við töldumst mest þurfa á því að halda. Hraunkotsflatir, púttflöt við skála og 2. 3. og 4. flöt fengu því yfirsáningu með skurðarvél í sumar. Vélina fengum við lánaða hjá Golfklúbbi Seltjarnarness en stefnt er að því að eignast slíka vél fyrr en síðar.

Allar flatir voru sandaðar 1x í byrjun tímabils og valdar flatir svo aftur í sumar. Stefnt er að þéttri söndun þegar flatir eru orðnar frosnar.

Flatir voru úðaðar með sveppalyfjum í haust í tveimur skömmtum sem hjálpar til við að halda sýkingum í lágmarki í vetur og vor. Vel hefur tekist með slíkar úðanir síðustu vetur og hafa þær skemmdir sem orðið hafa á flötum nánast eingöngu komið til vegna kals.

Allar flatir voru gataðar með 8mm teinum í haust til að hjálpa vatni að komast niður úr grassverðinum í vetur, svo vatn safnist síður á flötum og frjósi.