Skýrsla íþróttastjóra

Hjá Golfklúbbnum Keili fer fram öflugt íþróttastarf þar sem að allir geta fundið æfingar og þjálfun við sitt hæfi. 

Golfklúbburinn Keilir er fyrirmyndarfélag ÍSÍ frá árinu 2017. Það er gæðaverkefni íþróttahreyfingarinnar sem snýr að íþróttastarfi. Verkefnið gildir í 4 ár og er núna verið að vinna að því að endurnýja viðurkenninguna. Viðurkenningin er fyrir alla starfsemi klúbbsins, fyrir unga sem aldna en ekki bara barna- og unglingastarfið.  

Auk þess voru gerðar siðareglur Keilis. Þær eiga að  veita öllum félagsmönnum, starfsmönnum, þjálfurum, foreldrum og öllum þeim sem koma að starfinu  almennar leiðbeiningar bæði í leik og starfi.  

Einnig er unnið eftir jafnréttisáætlun og forvarnarstefnu hafa öll þessi gögn fengið samþykki í tengslum við fyrirmyndarfélag ÍSÍ. 

Þær eru ekki tæmandi en eiga að vera til ábendingar  og vera hvetjandi.  

Golfklúbburinn Keilir vinnur eftir leiðarvísi fyrir golfklúbba sem gefin var út af Golfsambandi Íslands árið 2017 sem fjallar um skipulag, kennslu og þjálfun barna og unglinga. Leiðarvísirinn hefur þann tilgang að móta stefnu og leggja grunninn að uppbyggingu. 

Það er einnig unnið eftir íþróttanámskrá Keilis sem var gefin út fyrir nokkrum árum. Hún  er mikilvæg fyrir alla til að fá heildarsýn yfir það barna- og unglingastarf sem fram fer í golfklúbbnum. 

Að lokum

Nú er svo komið að mér finnst Golfklúbburinn Keilir standa á tímamótum varðandi allt innra starf hjá börnum og ungmennum og afreksstarfið.   

Framlag Keilis til íþróttastarfsins verður að vera meira en það hefur verið undanfarin ár. Fjölga verður þjálfurum og hlúa betur að öllu starfinu.   

Heildarvelta íþróttastarfsins hefur verið á bilinu 24-28 milljónir undanfarin ár með hækkunum og lækkunum á milli ára. 

 Aðrir klúbbar sem við viljum bera okkur saman við hafa verið að gefa í svo um munar bæði með að fjölga hjá sér þjálfurum og auka við fjármagnið. Því miður höfum við dregist ansi mikið aftur úr á síðustu árum varðandi fjármagn til starfsins ef miðað er við aðra golfklúbba á stór Reykjavíkursvæðinu. 

Ég veit að það er vilji innan stjórnar Keilis að gera betur varðandi þennan lið. Hugmyndir hafa verið kynntar um hvernig íþróttastjóri og þjálfarar Keilis sjá fyrir sér næstu skref. Vonandi verður tekið vel í þær hugmyndir. 

Í dag er Keilir með stærsta barna- og ungmennastarf þeirra aðila sem eru að æfa golf í lágmark 4 mánuði á hverju ári og með æfingar lágmark 2x í viku.  

Samkvæmt Sportabler hjá Keili eru 180 einstaklingar 18 ára og yngri sem eru að æfa íþróttina samkvæmt viðmiði frá ÍBH. Fjölgun í ár hefur verið um 50 krakkar.  

Við erum ekki að telja iðkendur sem taka þátt í golfleikjaskóla Keilis sem kylfinga sem eru að æfa. Ef við gerðum það þá gætum við bætt við hátt í 220-280 krökkum á hverju ári.  

Ljóst er að það er mikill hagur fyrir viðkomandi golfklúbb að vera með framúrskarandi þjálfara og stefnu í barna- ,unglinga- og afreksþjálfun og að allt starfið sé markvissara og betra. 

Að lokum vil ég þakka öllum þeim sem komu að golfstarfinu okkar á árinu 2021, öllu starfsfólki, öllum kylfingum, börnum og ungmennum og fullorðnum, velunnurum og styrktaraðilum. 

Við viljum alltaf gera gott starf betra og halda því við sem golfklúbburinn Keilir er þekktur fyrir, frábæran árangureinn besta golfvöll á Íslandi og góða aðstöðu til golfiðkunar. 

Áfram Keilir
Karl Ómar Karlsson íþróttastjóri Keilis.