Ávarp formanns

Eftir algjöra sprengju í golfiðkun árið 2020 áttum við von á rólegra tímabili með minni ágangi á völlinn á nýju sumri. Þess í stað hélt golfæðið áfram, kylfingar héldu áfram að streyma í klúbbinn og biðlisti byrjaði að myndast í fyrsta skipti í mörg ár. Við höfum verið föst á því að halda fjölda fullgreiðandi kylfinga á Hvaleyrarvelli undir 1.200 á hverjum tíma og því útséð að biðlistar munu vera viðloðandi við golfklúbbinn áfram. Vegna þessara takmarkanna er Keilir nú fimmti stærsti klúbbur landsins í stað þess að vera sá þriðji stærsti. Það sem kom skemmtilega á óvart umfram annað var að það er veruleg aukning í fjölda kylfinga 19-27 ára sem er aldurshópur sem hefur jafnan horfið úr starfinu og höfum við markvisst reynt að fjölga í þessum flokki. Fjöldi spilaðra hringja á árinu var 35.468 á móti 40.246 árið 2020 en munurinn liggur aðallega í því að í byrjun september datt golfiðkun mikið til niður þar sem kylfingur fóru að fara meira erlendis í stað þess að allir voru heima að spila árið 2020. Til að auka aðgengi meðlima að vellinum hefur verið dregið verulega úr mótahaldi en bæði hefur innanfélagsmótum fækkað sem og fyrirtækjamótum en þau voru eingöngu tvö á síðasta ári.    

Sjálfbærniverðlaun Golfsambands Íslands

Á nýafstöðnu golfþingi hlaut Keilir þann heiður að vera veitt Sjálfbærniverðlaun GSÍ en þetta er í fyrsta sinn sem slík viðurkenning er veitt.  Þetta er góður vitnisburður um það starf sem unnið er hjá golfklúbbnum en litið var til ýmissa þátta eins og umhverfisverndar og sjálfbærni, sem felur jafnframt í sér aukin gæði og hagræðingu í rekstri. Meðal slíkra verkefna eru samstarf við álverið í Straumsvík til að endurnýta kælivatn til vökvunar golfvalla Keilis. Einnig var litið til nýtingu gamalla mannvirkja sem áður tilheyrðu Sædýrasafninu í þágu heilsárs æfingaaðstöðu. Allt er þetta í anda hugmyndafræðinnar um sjálfbærni og sjálfbæra þróun. 

Framkvæmdir samkvæmt áætlun 

Það var mikið um að vera hjá vallarstarfsmönnum á þessu ári en 17. braut (verðandi 14. braut) var tekin í gagnið um mitt sumar. Brautin er bæði erfið og skemmtileg viðureignar en þykir helst til löng af rauðum teigum og verður því farið í að bæta við teig næsta sumar og stytta brautina. Einnig verður farið í meiri frágang í kringum hana og á henni til að gera hana enn betri. Undirbúningur við nýja par 3 holu sem verður 17.braut var á fullu ásamt því að verðandi 12. braut verður tilbúin til leiks næsta vor. Við munum hefja leik á þessum tveimur nýju brautum næstkomandi sumar og sjáum við því loks fyrir endann á þessu mikla framkvæmdatímabili þar sem stefnt er á að opna síðustu brautina árið 2023. Þær breytingar urðu á þessu ári að fjarlægðarmælar voru fjarlægðir af brautum og í staðinn voru mælingar settar ofan á úðarana á vellinum. Það er mikill vinnusparnaður fólginn í þessari aðgerð þegar kemur að slætti auk þess sem reglulega þurfti að laga staurana; þeir voru skakkir eða búið að færa þá úr stað og því í rangri fjarlægð frá flöt.  Í stað þess að hafa staurana höfum við nú mun þéttara net af merkingum vegna fjölda úðara. Ruslafötur voru einnig fjarlægðar af vellinum og flokkunarstöðvum komið fyrir á tveimur stöðum, á 5. braut og við skála.  Við vorum mjög ánægð með hvernig Keilisfólk tók á móti þessu af jákvæðni og teljum við þetta til mikilla bóta, bæði í minni vinnu sem og útlitslega.  

Áhaldahús 

Vinna við hönnun á nýju áhaldahúsi hófst á árinu og er stefnt að því að hefja framkvæmdir á stálgrindarhúsi á nýju ári. Húsið mun bæta vinnuaðstöðu starfsmanna verulega auk þess sem við fáum nauðsynlegt geymslupláss fyrir vélakost félagsins en Keilir hefur hingað til leigt húsnæði á veturna fyrir sínar vélar.  Að hönnun lokinni fór fram grenndarkynning en enn er beðið eftir endanlegu framkvæmdaleyfi sem  gert er ráð fyrir að fáist fyrir lok árs. Áætlað er að fjármagna byggingu áhaldahúss að hluta til með lántöku.  

Framkvæmdir í golfskála  

Fyrir utan almennt viðhald á golfskála var loftið klætt með dúk til að bæta hljóðvist í skála og tókst það mjög vel. Stefnt er á að fara í framkvæmdir á salernum golfskálans bæði á efri og neðri hæð en þau eru löngu komin á tíma auk þess sem skipt verður um gólfefni á neðri hæð.    

Vinnuhópur um breytingu á golfskála

Samkvæmt forgangslista ÍBH þar sem íþróttafélögin í Hafnarfirði sammælast um hvernig fjármagni frá Hafnarfjarðarbæ er deilt á milli félaganna færist framkvæmdin um stækkun golfskála ofar á listann. Gert er ráð fyrir stækkun á neðri hæð skálans þannig að hægt verði fyrst og fremst að stækka eldhús, afgreiðslu og auka geymslupláss en það er af mjög af skornum skammti í húsinu eins og er. Með því að stækka neðri hæðina gefst svo kostur á að stækka útisvæði. Settur hefur verið á fót vinnuhópur sem mun vinna tillögur að breytingunum áfram og verður spennandi að sjá afraksturinn.  

Félagsstarf 

Meistaramót gekk vel og urðu þau Guðrún Brá Björgvinsdóttir og Daníel Ísak Steinarsson klúbbmeistarar en Daníel Ísak átti glæsilegan hring þar sem hann setti nýtt vallarmet þegar hann fór hringinn á 62 höggum. Þar sem mikil aðsókn hefur verið í meistaramót síðustu ár og dagarnir oft langir var ákveðið að prófa nýtt fyrirkomulag þar sem beitt var niðurskurði og aðeins 12 efstu í hverjum flokk höfðu keppnisrétt á lokadeginum. Þetta fyrirkomulag létti allverulega á lokadeginum og meistaraflokkskylfingar gátu notið kvöldsins inni í skála en ekki úti á velli eins og svo oft áður.   

Mikil ánægja virtist vera með þessa nýjung þó að ekki hafi allir verið sáttir, enda oft erfitt þegar breytingar eru gerðar. Spurt var sérstaklega um afstöðu kylfinga gagnvart þessu og var mikill meirihluti kylfinga ánægður með þessa breytingu og því nokkuð öruggt að þetta fyrirkomulag sé komið til að vera. Eins og alltaf var stemmingin góð og Keilisfólk dansaði inn í nóttina.   

Góður árangur afrekskylfinga 

Kylfingar Keilis unnu 5 Íslandsmeistaratitla og 2 stigameistaratitla. Guðrún Brá varð Íslandsmeistari í holukeppni kvenna.  Daníel Ísak Steinarsson varð Íslandsmeistari í höggleik 21 ára og yngri. 

Markús Marelsson var Íslandsmeistari unglinga en vann hann sinn annan titil í röð í flokki 14 ára og yngri.   

Þórdís Geirsdóttir varð Íslandsmeistari kvenna 50+ sjöunda árið í röð auk þess að vera stigameistari kvenna 50+ án forgjafar árið 2021.   

Karlasveit Keilis 50+ urðu svo Íslandsmeistarar golfklúbba en sveitina skipuðu þeir Björgvin Sigurbergsson, Ásgeir Jón Guðbjartsson, Björn Knútsson, Hálfdán Þórðarson, Halldór Ingólfsson, Gunnar Þór Halldórsson, Magnús Pálsson, Jón Erling Ragnarsson og Hörður Hinrik Arnarsson sem var liðstjóri.     

Atvinnumenn úr röðum Keilis eru þau Axel Bóasson, Guðrún Brá Björgvinsdóttir og Rúnar Arnórsson.   

Íþróttastarf  

Mikill metnaður er lagður í íþróttastarf hjá Keili og fer Karl Ómar Karlsson fyrir starfinu.  Hann er íþróttakennari að mennt og PGA golfkennari en ásamt honum hefur Jóhann Hjaltason verið í fullu starfi. Þar að auki  höfum við notið krafta annara golfkennara en ekki að því marki sem lagt var upp með og er stefnt að því að auka þann þátt verulega.  Mikil áhersla hefur verið lögð á barna- og unglingastarfið þar sem er mikil fjölgun og flottir framtíðar kylfingar eru í mótun en á sama tíma virðist afreksstarf  hafa liðið fyrir þessar áherslur. Karlasveit Keilis féll um deild í sumar og voru það mikil vonbrigði. Það er því brýnt að auka stuðning við þjálfara til að mæta kröfum þessa hóps.  Í fjárhagsáætlun ársins er gert ráð fyrir auknu fjármagni þessu til handa og er það von stjórnar að þessi innspýting muni stuðla að betra aðgengi að þjálfurum á komandi sumri.    

Áfram er lögð áhersla á að allir geti notið sín innan starfsins, hvort sem kylfingar stefna á atvinnumennsku eða langar

Brynja kveður  

Eftir að hafa staðið vaktina í 21 ár kveður Brynja okkur. Brynja hefur verið hjartað í klúbbnum allan þennan tíma og hefur hún með dugnaði og elju byggt upp frábæra veitingasölu og veitt framúrskarandi þjónustu frá fyrsta degi.  Við þökkum Brynju kærlega fyrir frábært starf í okkar þágu og óskum henni velfarnaðar á nýjum vettvangi.   

Unnið er að því að fá nýjan aðila til að taka við keflinu en það er ljóst að það verður ekki auðvelt að fara í hennar fótspor.  

Félagsstarf 

Már Sveinbjörnsson tók við sem formaður starfs eldri kylfinga en með honum störfuðu þau Björk Ingvarsdóttur, Erna Jónsdóttir, Lucinda Grímsdóttir, Hallgrímur Hallgrímsson og Gunnar Hjaltalín. 

Alls voru haldin 7 mót og þar af eitt í Grindavík en alls tóku 74 kylfingar þátt. Sumrinu var svo slúttað með veglegu lokahófi þann 15. september.  

Matthildur Helgadóttir var formaður kvennanefndar en með henni störfuðu þær Sveinborg Bergsdóttir, Elín Soffía Harðardóttir, Sigrún Einarsdóttir, Nína Edvardsdóttir og Eva Harpa Loftsdóttir. 

Starfið var í miklum blóma í sumar, mótaröðin á sínum stað auk þess sem hið árlega kvennamót Keiliskvenna var haldið í ágúst en var það mót glæsilegt að vanda og er styrkt af hafnfirskum fyrirtækjum.  Keiliskonur fjölmenntu í Borgarnes í hina árlegu haustferð og var gleðin við völd eins og alltaf í þessum ferðum.   Matthildur lét svo af störfum sem formaður kvennanefndar í haust en kvennastarfið hefur vaxið og dafnað undir hennar handleiðslu.  Við þökkum henni fyrir frábært starf á liðnum árum. 

Að lokum vil ég þakka þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum sem komu að starfi Keilis á einn eða annan hátt á árinu og hjálpuðu til við að gera starfsemi félagsins sem veglegasta en án þeirra væri ekki hægt að reka þessa starfsemi.  

Framtíðin er björt og mikil vinna framundan við að klára breytingar á velli og keyra af stað ný verkefni sem snúa að vélageymslu og golfskála.  En einnig verður gott þegar andrými myndast til að huga að vellinum án þess að vera í framkvæmdafasa.  

Takk fyrir árið,
Guðbjörg Erna Guðmundsdóttir
Formaður