Framkvæmdir

Nýframkvæmdir

Unnið var að fjórum nýjum brautum á árinu. Verðandi 18. flöt og umhverfi (núverandi 12.) verðandi 14. braut (núverandi 17.) verðandi 17. braut (par 3) og verðandi 16. braut (sameining 10. &11.).

Verðandi 18. (núverandi 12.)

Fyrri part sumars fór kraftur í að rækta upp flöt og umhverfi verðandi 18. brautar. Sáning frá árinu áður tókst vel en eftirfylgnin þó mikilvæg. Flötin var komin í gott stand seinnipart sumars en þó var ákveðið að bíða með opnun til næsta árs. Það var ánægjulegt að sjá að sú ákvörðun skilaði sér bersýnilega þar sem flötin fékk hlýindi haustsins til að þétta sig enn betur og fylla upp í þau sár sem enn voru opin. Erfitt getur verið að laga skemmdir og önnur sár eftir að opnað hefur verið fyrir spil á ný svæði og því eru starfsmenn mjög ánægðir með þessa ákvörðun og kylfingar ættu að geta spilað inn á þessa nýju flöt í flottu ástandi næsta vor.

Gaman er að segja frá því að vinnsla 18. flatarinnar var nokkuð sérstök. Vegna aðstæðna komst arkitektinn ekki á svæðið til að samþykkja hæðir og notuðumst við því við drónamyndir til staðfestingar. Myndirnar voru teknar reglulega meðan á uppbyggingu stóð og breytti arkitektinn þeim svo í þrívíddarmyndir og sendi svo punkta og nýjar hæðir til baka.

Einnig ákváðum við að nota einungis slátturóbot til að halda nýju svæðinu vel slegnu og sáum þar mikinn mun á. Sláttur varð fyrir vikið tíðari, engin hjólför mynduðust og sár náðu að gróa betur við minna áreiti. Þetta þótti Tom Mckezie akrkitekt mjög áhugavert og sagði framkvæmdina „grænustu“ flataruppbyggingu sem hann hefði tekið þátt í.

Verðandi 14. (núverandi 17.)

Mikil vinna fór í flöt og umhverfi, glompur og braut á síðasta ári. Vinnan fór þó fram seint um haustið og var því fyrirséð að mikil vinna tæki við í sumar til að koma brautinni í það horf sem æskilegt telst. Mesta vinna sumarsins á 17. brautinni fór í teigana. 2 nýir teigar voru byggðir upp og vegna tímaleysis voru þeir tyrfðir. Þökurnar skárum við sjálfir af gömlu 17. brautinni og þótti okkur vinna við teigana hafa tekist vel. Hleypt var inn á rauða teiginn daginn eftir tyrfingu en sá guli fékk lengri tíma til í að jafna sig þar sem hægt var að nota hvíta teiginn tímabundið á meðan. Báðir þessir teigar líta enn mjög vel út og fara heilbrigðir inn í veturinn.

Vinna við flöt og umhverfi fólst aðallega í tíðum söndunum og áburðargjöfum. Sandanirnar hjálpuðu til við að slétta þau svæði sem tyrfð voru svo hægt væri að pútta með góðu móti þegar opnað var. Áburðargjafirnar hjálpuðu svo torfinu að róta sig og vaxa upp úr sandinum. Lítilsháttar vinnu þurfti að klára við glompur þar sem torf úr köntunum hafði fokið um veturinn og helstu verk við brautina sjálfa var tíður sláttur og áburðargjöf.

Verðandi 17. (par 3)

Stærsta verkefni starfsmanna þetta tímabilið var án efa uppbygging nýrrar par 3 brautar.

Líkt og við verðandi 13. og 18. braut fengum við gröfumann frá Englandi til liðs við okkur til að móta flöt, teiga og umhverfi, ásamt teigum fyrir verðandi 18. braut. Öllu efni sem fyrirhugað var að nota við framkvæmdirnar var ekið út á Hvaleyri fyrir sumarið.. Þann 23. júlí hófst gröfuvinna á svæðinu og þeirri vinnu lauk 7. ágúst. Á þessum tíma tókst að móta flöt og umhverfi ásamt þremur teigum fyrir 17. brautina og gulum og hvítum fyrir verðandi 18. braut.

Mikil vinna tók þá við fyrir starfsmenn okkar við að fínpússa svæðin, leggja vökvunarkerfi, hlaða glompur og loks sá. Sáð var í 17. gula teiginn fyrst, þann 13. júlí. Þann 17. júlí sáðum við í flötina og umhverfi hennar en þá hafði glompuhleðslu verið lokið. Þann 20. ágúst sáðum við í rauðan teig fyrir 17. braut.

Mikill tími fór í verkefnin og því miður tókst okkur ekki að sá í teigana fyrir 18. braut samhliða þeirri 17. og mun það verkefni því bíða okkar næsta vor.

Sáningin tókst nokkuð vel en þó var nokkuð um sveppasýkingar á svæðunum, mest á gula teignum en einnig þó nokkuð á flötinni. Strax og dúkar voru teknir af úðuðum við sveppalyfjum á svæðin. Sveppalyfin gera vel í að hindra frekari sýkingar en lækna alla jafna ekki þau grös sem sýkt eru fyrir.

Fyrirhuguð opnun á 17. brautinni er vorið 2023 svo næsta sumar mun fara í að þétta grassvörðinn og ná svæðinu í heild sem heilbrigðustu áður en opnað verður fyrir spil. Líkt og gert var á verðandi 18. flöt, munum við einungis láta slátturóbot slá svæðið til að byrja með, að undaskilinni flötinni sjálfri. Nú í haust útbjuggu starfsmenn sólarsellu hleðslustöð sem sér slátturóbotinum fyrir rafmagni því mikið verk væri að koma viðunandi straumi með kapli á svæðið.

Verðandi 16. braut

Síðasta verkefni okkar í gildandi heildarskipulagi Mckenzie & Ebert er sameining núverandi 10. og 11. brauta. Síðasta vetur byrjuðum við að safna efni vinstra megin við 11. gula teig því fyrirséð var að lyfta þyrfti því svæði ef vel ætti að vera. Eftir að hafa svo fengið teikningar frá Tom Mckenzie var ljóst að við þyrftum a.m.k. 9.000 m3 (yfir 500 vörubílar) af efni svo hægt væri að fara eftir þeim teikningum. Nú í haust náðist svo samkomulag við BYGG, um að þeir losuðu hér efni sem þeir taka upp við nýbyggingasvæði sitt í Hafnarfirði. Nokkuð ljóst er að ef ekki hefði svo farið, hefðum við átt mjög erfitt með að ná þessu mikla magni af efni á svæðið á tilsettum tíma. Nú fer efnissöfnun að ljúka á svæðinu og munum við þá koma því í réttar hæðir með jarðýtu og sá svo í svæðið næsta sumar.

Lokahnykkurinn verður svo unninn næsta vetur/vor en þá mun jörð jöfnuð þar sem nú er 10. flöt og 11. teigur. Til að raska ekki golfleik verður það svæði svo tyrft vorið 2023 og opnað fyrir golfleik í beinu framhaldi.

Á árinu voru unnar yfir 1700 vinnustundir við nýframkvæmdir af starfsmönnum Keilis.

Sveinskotsvöllur

Þrátt fyrir að enn sé nokkur vinna í að Sveinskotsvöllur verði í okkar huga tilbúinn þá mætti segja að á liðnu tímabili hafi völlurinn náð ákveðnum þroska.

Mikið hefur verið reynt og gert með Sveinskotsvöll síðustu ár og þykir okkur að nú fyrst hafi verið komið nokkuð gott jafnvægi á völlinn. Stærri svæði voru slegin utan brauta á mörgum stöðum, brautir komnar nær teigum og breidd þeirra meiri. Eftir breytingar á vellinum hefur vantað betri vegvísun um völlinn og kylfingar jafnvel ekki vitað hvert fara ætti. Þetta sumarið tókum við niður öll laus skilti og vegvísa, sem áttu það til að snúast eða jafnvel liggja á jörðinni, og steyptum þess í stað niður háa og auðsjáanlega vegvísa. Ásamt betri vegvísun sem slíkri, þótti okkur þessi lausn einnig töluvert fallegri og snyrtilegri kostur.

Flatirnar á Sveinskotsvelli voru ágætar í sumar og fengu þær að mestu sama viðhald og flatir Hvaleyrarvallar. Ljóst er þó að næstu ár þurfum við að bæta við yfirsáningum á völlinn og reyna að koma meira af æskilegum grastegundum í þær svo gæðin haldi áfram að aukast.

Helsta vandamálið á Sveinskotsvelli í ár voru þó teigarnir. Teigarnir sem margir eru komnir með sjálfvirka úðastúta til vökvunar, eru í minni kantinum og með gríðarlegri aukningu á spili um völlinn hafa þeir margir farið ansi illa. Áherslur okkar á næsta ári er að koma teigum í viðunandi ástand auk þess að halda áfram að vinna að bættri grassamsetningu á flötunum. Áfram vinnum við einnig að því markmiði að koma sjálfvirkri vökvun í alla teiga og allar flatir á Sveinskotsvelli.

Útseld vinna

Útseld þjónusta var með svipuðu móti og síðustu ár. Helstu viðskiptavinir klúbbsins eru sem fyrr ÍTH og ÍTR. Sláttur og önnur sérverkefni á Kaplakrika, Ásvöllum og Hamranesi fyrir ÍTH og sandanir, gatanir og úðanir fyrir ÍTR. Enn fækkar grassvæðum hjá Reykjavíkurborg og þau svæði sem við þjónustum í dag eru um 200.000 m2. Á síðasta ári voru þau um 220.000 og ef við lítum nokkur ár aftur í tímann voru svæðin vel yfir 300.000 m2.

Klúbburinn sá einnig um slátt á púttflötum við Hrafnistu. Þessar púttflatir eru í Hafnarfirði, Kópavogi og Reykjavík og voru þau slegin og holum skipt út einu sinni í viku yfir sumartímann.

Brýningar gengu vel síðasta vetur og var fjöldi kefla sem brýnd voru í takt við árin áður. Með fjárfestingu í nýjum brýningarbekk gekk brýning hratt fyrir sig og var jafnan unnið á tvo bekki samtímis.

Auk ÍTR þjónustuðum við áfram nokkra klúbba utan höfuðborgarsvæðisins, þá aðallega við götun og söndun. Knattspyrnusvæði Borgarness og knattspyrnusvæði á Suðurnesjum eru þar helst að nefna.

Auk ofangreindra verkefna tók klúbburinn að sér það verkefni að sá í, og dúka nýtt grassvæði við Ásvelli. Verkið sem fyrirhugað var að fara í snemma sumars dróst á langinn og ekki var hægt að sá í völlinn fyrr en í lok ágúst. Þrátt fyrir tafir tókst sáningin ágætlega og gaman verður að fylgjast með uppvexti svæðisins næsta sumar.

Auk grasvallar að Ásvöllum var einnig stefnt á sáningu í 14.000m2 æfingasvæði að Kaplakrika en vegna tafa á undirvinnu verður verkefnið ekki klárað fyrr en næsta vor.

Kargi

Eftir nokkur ár af samtölum og breytingum teljum við að ósnerti hluti vallarins hafi náð jafnvægi í sumar. Áfram höldum við í báráttunni um þynningu þessara svæða og var hái karginn sleginn niður og grasi safnað í vor og svo aftur í haust. Ekki tókst að slá öll svæðin í bæði skiptin en þegar þetta er ritað erum við enn í þessu verkefni og vonumst til að geta slegið sem mest inn í veturinn.

Vélakaup og aðstaða starfsmanna

Lítil áhersla var lögð á vélakaup þetta árið. Ástæðan er að til stendur að reisa stálgrindarhús undir vélaflotann okkar. Vonuðumst við eftir því að byrja á þeirra framkvæmd í haust en hefur ferlið því miður dregist á langinn.

Keyptur var stór sturtuvagn í sumar. Sturtuvagninn höfðum við reglulega fengið að láni hjá vinum okkar í Golfklúbbi Garðabæjar og Kópavogs á meðan við höfum staðið í framkvæmdum við gerð nýrra brauta. Það var því mikið lán fyrir okkur þegar GKG vildi losa sig við vagninn.

Vagninn nýtist okkur gríðarlega vel við allan efnisflutning en hann er u.þ.b 3x stærri en þeir vagnar sem við áttum fyrir.

Lítið breyttist því í vélaflota klúbbsins þetta árið en á síðasta tímabili bættust við 4 nýjar ásetuvélar. Nú loksins erum við farnir að sjá framfarir í sjálfvirkum sláttuvélum sem höfða betur til golfvalla. Þrátt fyrir að litlu róbotasláttuvélarnar séu góðar á jaðarsvæði hefur vantað lausnir fyrir stærri svæði og svæði sem slegin eru neðar. Á árinu voru kynntar nýjungar á þessu sviði og teljum við nokkuð líklegt að á næstu 2-3 árum muni klúbburinn fjárfesta í róbot sem séð getur um slátt á stórum svæðum, í lágum sláttuhæðum. Þangað til er stefnt á að bæta við minni slátturóbotum sem séð geta um jaðarsvæði sem annars eru tímafrek í slætti

Lengi hafa þeir sem viljað hafa vita, áttað sig á því að aðstaða vallarstarfsmanna er í engu samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til slíkra vinnustaða í nútíma samfélagi.

Síðustu ár hafa starfsmenn klúbbsins leitað leiða til að uppfæra aðstöðuna og breyta henni í mannsæmandi vinnustað. Reglulega hafa starfsmenn gert breytingar og bætingar á þeirri aðstöðu sem við höfum en það breytir því þó ekki að sífellt fleiri vélar þurfa að vera geymdar úti, eða annars staðar í bænum yfir veturinn. Plássið sem núverandi aðstaða býður upp á er langt frá því að vera nægt til að hýsa allar vélar okkar og starfsmenn og daglegt brauð að klifra þurfi yfir vélar á morgnanna til að komast á kaffistofuna. Einnig þýðir plássleysið að vélvirkinn okkar hefur mjög takmarkað aðgengi að vélum og oft erfitt fyrir hann að sinna sínum stöfum nema færa hluta af vélaflotanum út úr skemmunni því verkstæðið og geymslusalurinn eru í raun sama rými hússins. Mestar áhyggjur hefur undirritaður haft af starfsumhverfi í þessu samhengi. Við á Keili höfum komið upp frábæru teymi reyndra manna, í starfsgrein þar sem nýliðun er sögulega lítil og brotfall mikið. Það gefur auga leið að erfitt er að halda í góða starfsmenn ef starfsumhverfi er ábótavant. Þrátt fyrir að við séum ekki eini klúbburinn sem glímir við slík vandamál, eru sífellt fleiri klúbbar að bæta geymslupláss og aðstöðu starfsmanna og þykir mér óeðlilegt að leiðandi klúbbur, sem Keilir hefur alltaf verið, dragi fæturna í þeim efnum.

Eftir mikla ígrundun komumst við að þeirri niðurstöðu að vænlegast væri að reisa stálgrindarhús sem hýsa skuli vélaflota okkar. Ákveðið var að taka skref í átt að þeirri vinnu og sækja um byggingarreit, framan við núverandi vélaskemmu. Húsið var teiknað og liggur umsókn þessi nú á borði sýslumanns.

Með því að geta geymt vélar okkar þar, opnast heilmiklir notkunarmöguleikar í núverandi vélaskemmu. Þar væri hægt að hafa kaffistofu fyrir starfsmenn, í samræmi við þann fjölda sem starfar á vellinum, fataaðstöðu, skrifstofur vallastjóra og verkstæði sem uppfyllir staðla. Ég vonast innilega til að þessi vinna haldi áfram og hægt verði að reisa slíkt hús sem allra fyrst. Ef ekki hræðist ég að klúbburinn muni missa lykilstarfsmenn sem erfitt verður að leysa af.

Nýjungar

Síðastliðin ár hafa starfsmenn klúbbsins verið duglegir að heimsækja velli erlendis. Saman og í sitthvoru lagi. Þegar heimsóttir eru vellir í hæsta gæðaflokki eru alltaf hlutir sem maður uppgötvar og bætir í hugmyndabankann. Úr þessu safni langar okkur að innleiða ýmsa hluti hjá okkur á Keili og létum til skarar skríða með nokkra af þeim í vor.

Það sem okkur fannst áberandi samnefnari með þeim völlum sem við viljum bera okkur saman við, eru manngerðir hlutir á völlunum. Undantekningalaust reyna slíkir vellir að halda manngerðum hlutum í lágmarki. Vegna fagurfræðilegra sjónarmiða, vinnusparnaðar og umhverfisvitundar.

Fjarlægðarmerkingar

Fjarðlægðarhælarnir sem staðið hafa vaktina hjá okkur í allmörg fengu loks frí þetta árið. Hælarnir sem voru í jaðri brauta, með 50 metra millibili voru iðulega skakkir og fór mikill tími í að rétta þá við, einungis til að leyfa þeim að síga aftur til hliðar. Hælana þurfti einnig að mála og bera á, að minnsta kosti annað hvert ár.

Þar sem við búum svo vel að hafa vatnsúðara á brautum ákváðum við að skipta hælunum út fyrir merkingar á úðahausum í brautum. Með þessu skiptum við á Hvaleyrarrvelli út um 26 fjarlægðarmerkingum fyrir tæplega 100. Nýju merkin sem eru með um 20 metra millibili á brautunum eru einnig föst á hausunum og hreyfast því aldrei til, þurfa ekkert viðhald og bæta heilt yfir ásýnd vallarins.

Ruslafötur

Í bland við upplifanir ofangreindra heimsókna, aukinnar umhverfisvitundar og vinnusparnaðar ákváðum við að fækka ruslafötum á vellinum, sem áður voru á hverjum teig vallarins. Þó þægilegt sé að geta losað sig við rusl á hverjum teig þótti okkur gallarnir við tunnurnar vega þyngra en kostirnir. Tæma þurfti tunnurnar daglega, þær voru dýrar í innkaupum, fuku gjarnan í miklum vindi og ekki var hægt að flokka úrganginn, nema flöskur, sem þó þurfti iðulega að tína upp úr ruslinu.

Flokkunarstöðvar eru eitthvað sem víða tíðkast og leysa öll þau helstu vandamál sem fylgdu gömlu tunnunum. Auðvelt er að flokka úrgang, sjaldnar þarf að tæma þær, standa af sér veður og vind og gera ásýnd vallarins náttúrulegri. Sums staðar hefur flokkunarstöðvum verið mætt með mótlæti meðlima en okkur þótti meðlimir okkar taka breytingunum vel, enda hefur skilningur Keilismanna á umhverfismálum verið til fyrirmyndar í gegnum tíðina.

Púttstangir

Líkt og aðrar nýjungar kynntar á árinu, leysa púttstangirnar á æfingaflötunum fjölþættan vanda. Áður höfðum við um 48 skornar holur á æfingaflötum okkar. Erfitt er fyrir starfsfólk vallarins að skipta nægilega ört út svo miklum fjölda hola og afleiðingin sú að mikið slit myndast í kringum þær. Eftir að hafa séð stangirnar, sem stungið er í grassvörðinn, víða, þótti okkur þess virði að prófa það á Keili. Kostur stanganna er sá að tími sparast til annarra verka, slit í kring um holur heyrir sögunni til og nýting flatanna mun meiri. Auk þess er kostur fyrir þann sem æfir sig að geta staðsett skotmarkið í takt við púttin sem æfa á þá stundina.

Fyrir þá sem vilja svo pútta í holu ákváðum við að skilja eftir nokkrar holur á hverri flöt fyrir sig sem hægt er að skipta örar út og halda gæðunum í hámarki.

Lokaorð Vallarstjóra

Árið 2021 var viðburðaríkt á Keili. Mikil aðsókn var á vellina okkar auk þess sem uppbygging þriggja nýrra hola átti sér stað. Framkvæmdirnar hjá okkur skiptu sér vel milli mánaða og héldu starfsmönnum uppteknum yfir allt tímabilið.

Heilt yfir eru vallastarfsmenn ánægðir með tímabilið en að sama skapi þakklátir fyrir örlítið andrými inn í veturinn. Ef fram fer sem horfir verður næsta sumar einnig annríkt og því jákvætt að starfsmenn nái að hlaða batteríin fyrir komandi átök.

Nú þegar við erum farnir að sjá fyrir endann á endurskipulagningu Hvaleyrarvallar er ekki laust við að smá spenningur sé kominn í starfsmenn fyrir því að sjá Hvaleyrina í sinni endanlegu mynd. Við horfum jákvæðir á lokahnykkinn og hlökkum til að klára þetta stóra verkefni með öllum sem að því koma.

Takk fyrir frábært sumar og sjáumst full metnaði fyrir áframhaldandi framförum og betri völlum næsta sumar!

F.h. vallastarfsmanna
Guðbjartur Ísak Ásgeirsson