Ungviðið

Mikilvægast af öllu er að fyrstu kynni af golfíþróttinni séu jákvæð og að börnum og unglingum líði vel og þau finni að þau séu velkomin til okkar. 

Golfiðkun skal vera þroskandi líkamlega, félagslega og sálrænt. Með því móti skapast aðstæður fyrir mun fleiri börn og unglinga að njóta sín og æfa golf hjá Keili. 

Faglega er staðið að þjálfun barna og ungmenna og starfið er öflugt. Það er nú þegar farið að skila mjög góðum árangri þar sem við eigum marga af efnilegustu kylfingum landsins í flokki 10 ára og yngri, 12 ára og yngri og í flokkum 16 ára og yngri. 

Framtíðin er björt hjá Keili í golfstarfinu. Efniviðurinn er mikill og þar þarf að vanda til verka. Það er búið að leggja mikla rækt við uppbyggingu og þjálfun á undanförnum árum enda hefur fjölgað jafnt og þétt ár frá ári. 

 Stór hluti af þeim iðkendum verður vonandi hryggjarstykkið í keppnis og afreksmannahópum okkar í framtíðinni. 

Það er ansi mikið þolinmæðisverk, er krefjandi og mikil vinna sem í því felst að byggja upp kylfinga í byrjun og halda þeim við efnið. 

Í íþróttastarfi Keilis getur þú æft eins og þér hentarþú skiptir máli. Allir fá jöfn tækifæri til að stunda golf óháð vilja til keppnis- eða afreksgolfs. 

Krakkar frá 5 ára geta byrjað að æfa golf undir leiðsögn góðra þjálfara hjá Keili sem eru með mikla og góða reynslu á öllum sviðum golfíþróttarinnar.   

Við erum eini golfklúbburinn sem bjóðum upp á golfkennslu fyrir elstu deildir leikskóla. 

 

Að vera félagi

Öll börn og unglingar sem vilja stunda íþróttir til þess að svala félagsþörf sinni fá að stunda golf við sitt hæfi. 

 Ef viðkomandi finnur sig í félagsskapnum eru miklu minni líkur á brottfalli og góðir möguleikar á að golf verði stundað til langframa. 

Breiddin og bilið á milli kylfinganna er mikið, allt frá því að mæta bara 2x á æfingar í viku og upp í það að viðkomandi vill  eyða þar öllum stundum í hvaða veðri sem erSumir æfa golf til að fá á móti skjátíma heimafyrir, meðan aðrir stefna á að komast í landsliðið eða jafnvel atvinnumennsku. 

 Við gerum okkur grein fyrir því að við eignumst ekki afreksmenn nema að fjölmennur hópur æfi og veiti hvert öðru félagsskap.Það er svo frábært að sjá einstakling sem að bætir sig og finnst gaman og fátt sem er meira gefandi fyrir þjálfara.  Það er ánægjulegt að fylgjast með hvernig viðkomandi blómstar bæði innan vallar sem utan hans. 

Golfleikjaskóli Keilis 2021  

Golfleikjaskóli Keilis starfaði í sumar með breyttu sniði. Skólinn skiptist í tvennt eftir aldri. Golfleikjaskóli var fyrir 10 ára og yngri frá kl. 9:00 til 11:30. Eftir hádegi byrjaði síðan golfskóli fyrir 11 ára og eldri, frá kl. 13:00 til 15:00. 

Skólinn í ár gekk mjög vel og voru skráningar 230 talsins. Leiðbeinendur sem störfuðu við skólann voru 25 talsins. 

Skólastjóri var Karl Ómar íþróttastjóri Keilis og auk þess sá Sigurlaug Rún Jónsdóttir um að allt gengi vel fyrir sig. 

Markmið skólans  eru jákvæð fyrstu kynni af golfi og að það sé gaman að leika golf. Farið er í helstu þætti golfleiksins, allt frá púttum til upphafshögga og leiknar eru nokkrar golfholur á golfvelli. 

Öll kennsla er í formi þrauta og golfleikja og er lögð áhersla á að kynna helstu golfsiði og golfreglur fyrir krökkunum. 

Skólinn hefur verið mikill stökkpallur fyrir þau sem hafa áhuga á því að byrja að æfa golf og taka þátt í barnastarfi og íþróttastarfi Keilis. Keilir hefur fengið ansi marga krakka til að byrja að æfa golf og að gerast kylfingar.