Það er orðið morgunljóst að bjartsýnin bar mig ofurliði fyrr í mánuðinum.  Þegar horft var yfir Hvaleyrarvöll um miðjan apríl var útlitið gott.  Gras var á öllum flötum og farið að glitta í grænan lit.  Sá ég þá ástæðu til að leggja trú mína á veðurguðina og treysta þeim til að bera í okkur sól og sumaryl sem aldrei fyrr.  Spár um að halda upp á frídag verkamanna með því að opna inn á allar flatir voru blásnar upp og básúnaðar yfir kylfinga.

En þrátt fyrir að ég haldi nú upp á 20 ára starfsafmælið í ár, þá virðist ég ekki hætta að vanmeta veðurguðina og mátt þeirra til að takmarka kylfukast okkar íslendinga úr öllu góðu hófi.  Þrátt fyrir lengri sólargang þá hefur hitinn ekki látið sjá sig í sama mæli.  Þegar litið er til sólar þá rennur í hug mans textabútur með stórhljómsveitinni Buttercup: það eru öll ljós kveikt, það er bara engin heima.

Þrátt fyrir þennan frostakafla er útlitið ekki slæmt fyrir sumarið.  Hinsvegar munum við ekki geta opnað völlinn um mánaðarmót líkt og ég hafði vonast til.  Framundan er nánast linnulaust næturfrost.  Það er því ólíklegt að mikill gróandi taki við sér á næstu vikum.  Opnun 1. maí er því fokin út í veður og vind.  Eins og staðan er í dag þá erum við farnir að hallast að 14. maí sem líklegum opnunardegi.  Þessi dagsetning er þó ekki rituð í stein.  Ef frostakaflanum linnir fyrr en líkur eru á í dag, þá munum við að sjálfsögðu reyna að opna eins fljótt og hægt er.  En þangað til verðum við að beygja okkur undir ofuvald veðurguðanna og vona það besta.

Með sumarkveðju

Bjarni þór

Vallastjóri