Ástandið
Kylfingar landsins tilla sér nú niður fyrir framan sjónvarpið þessa helgina til að horfa á einn flottasta golfvöll í heimi. Völlurinn er að auki í algjörlega fullkomnu ástandi. Þá er ekki laust við að golf fiðringurinn hlaupi í menn. Fólk flykkist í Hraunkotið og slær nokkra bolta til að gíra sig upp fyrir kvöld af frábæru sjónvarpsefni. Nokkur húkk eru að sjálfsögðu poppfitu gærkvöldsins að kenna og paprikukryddið af Stjörnusnakkinu veldur slæsi. Þetta er alþekkt… eða þannig.
Þegar stemningin er slík, þá er svekkelsið ekki langt undan. Við búum á Íslandi… Veðurfarið er ekki alveg í samræmi við það sem íbúar Georgíu þekkja á þessum árstíma. Allir vilja samt í golf og þá kemur stórar spurningin. Hvernig kemur völlurinn undan vetri? Hvernig er ástandið?!
Það fór ekki framhjá neinum að mikill klaki safnaðist fyrir á vellinum í vetur. Slík klakasöfnun er mjög slæm fyrir gras ef hann hörfar ekki á innanvið sex vikum. Starfsmenn vallarins brugðust fljótt við í vetur. Strax fyrsta starfsdag ársins, fóru vallastarfsmenn að vinna að því að brjóta sér leið í gegnum klakann til að lofta um grasið sem undir var. Notast var við kalsíum klóríð til að hámarka klakabræðslu samhliða klakabroti. Þetta var gert við allar flatir og teiga sem voru í hættu. Erfiðara var að eiga við brautir þar sem að klakinn safnaðist fyrir í lægðum. Vatnið komst hvergi og fraus því aftur.
Þær aðgerðir sem farið var í á flötum hreinlega bjargaði þeim. Staðan í dag er sú að flestar flatir eru í mjög góðu ásigkomulagi. Meira að segja níunda flötin kemur vel út. Þeir sem sáu klakabrynjuna sem lá yfir henni vel fram í mars hefðu líklegast ekki trúað því. Það verða nokkrar lægðir í flötum eins og sjöttu, fimmtu og þriðju sem tekur smá tíma að ná til baka, en þessi svæði eru lítil og eiga eftir að hafa óveruleg áhrif. Önnur flötin verður hinsvegar áfram erfið. Mikil sjór gékk yfir völlinn í september sem olli vandamálum. Þetta er þó ekkert nýtt.
Verstu svæðin eru á brautum. Það verður töluvert um dauð svæði í lægðum í hrauninu. Þetta sýnir okkur þó vel hversu mikilvægar aðgerðirnar á flötunum voru. Við munum geta leikið með uppstillingum á brautum til að byrja með. Það tekur smá tíma og þolinmæði að ná þessum svæðum aftur í gott ásigkomulag.
En heilt yfir þá getum við sagt að ástandið sé mjög gott. Við þurfum að bíða af okkur páskahretið áður en við getum sagt hvenær við hleypum inná völlinn. Frost sem spáð er, getur hægt á því ferli. Við munum hinsvegar gera okkar allra besta til að koma fólki í almennilegt golf sem fyrst. Á meðan skellið þið ykkur bara í Hraunkot, en munið að þvo af ykkur alla poppfitu og paprikukrydd ef árangurinn á að vera í takt við Dufner og Johnson.
Golfkveðja
Vallastjóri